Hentar öllum sem unna listum og ævintýrum!

ArtHoliday og workshop er endurtekið í MögguHúsi í Frakklandi í sumar en þau tókust nokkuð vel síðastliðin tvö sumur. Námskeiðið er í vatnslitun fyrir byrjendur og lengra komna og hentar öllum sem unna listum og ævintýrum ...kjörið t.d. fyrir grunn og framhaldsskólakennara og leikskólakennara. Unnið verður úti undir berum himni í garðinum og á vinnustofu sem verið er að gera upp spölkorn frá húsinu. Dvölin er 7 nætur og þar af 4 kennsludagar. Innifalið í verði er gisting í 7 nætur, morgunverður og léttur kvöldverður í 4 daga en allir verða að taka þátt í undirbúningi, frágang og tiltekt.
Ýmsir áhugaverðir staðir einnig heimsóttir og í hádeginu fer hópurinn og kynnist þorpunum í kring og snæðir saman á einhverju veitingahúsinu en það eru alltaf góð tilboð í hádeginu út um alla sveit. Skissubók og vatnslitapappír er einnig innifalið. 
Vatnslitur er þægilegur á ferðalögum og eins þegar vinnuaðstaðan er lítil ..oftast þarf ekki nema eitt lítið borð. Þegar ég kenni þá vil ég ekki að nemendur máli eins og ég heldur geri tilraunir og reyni að finna eigin samhljóm …ferlið sjálft í myndgerðinni er heilandi og skiptir meira máli en útkoman.
Sendið póst á frakklandsferdir@hotmail.com til að fá nánari upplýsingar.


Kennari: Margrét Jónsdóttir listmálari er fædd í Reykjavík 1953 og hefur unnið sem myndlistarmaður í tæp 50 ár og stundað kennslu í 28 ár bæði við framhaldsskóla, grunnskóla og Myndlistarskóla Kópavogs, unnið við grafíska hönnun og rekið auglýsingastofu. Menntuð við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, diploma í frjálsri myndlist og síðar diploma í grafískri hönnun, mastersnám við Central Saint Martins Collage of Art í London og diploma frá Kennaraháskólanum. Margrét hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Einn af stofnendum Hagsmunafélags myndlistarmanna sem var undanfari Sambands íslenskra myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir Margréti eru í eign helstu listasafna landsins og hefur hún hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna og er hennar getið í ritinu Íslensk listasaga sem er fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur segir m.a. um verk Margrétar:„Óhætt er að segja að viðhorf Margrétar Jónsdóttur til myndlistar hafi sjaldan rúmast innan ráðandi sjónarmiða í hérlendu myndlistarumhverfi til þess er henni einfaldlega of mikið niðri fyrir. Með tjáningu þessara viðhorfa hefur hún iðulega staðið berskjölduð og fullkomlega tillitslaus og jafnframt fullkomlega heiðarleg - gagnvart sjálfri sér og áhorfendum.“

Það er ekki hægt að vera í sveitum Frakklands án þess að hafa bíl og þar sem
þetta er fámennt námskeið eða hámark 4 til 5 þá verður hópurinn að vera samtaka og taka flug og bílaleigubíl saman. Sendið póst á frakklandsferdir@hotmail.com til að fá nánari upplýsingar.



Comments

Popular Posts